Hallgrímur Pétursson
Hallgrímur Pétursson fæddist árið 1614, ,,að líkindum á Hólum í Hjaltadal, eða þar í grennd" (1). Faðir hans var skyldur Guðbrandi Þorlákssyni biskupi á Hólum og fékk fyrir tilhlutan hans starf sem kirkjuvörður og hringjari þar á biskupssetrinu. Ólst Hallgrímur upp á Hólum og mun snemma hafa þótt óstýrilátur og erfiður og átt það til að yrkja níð um samferðamenn sína. Segir sagan að hann hafi með illu framferði sínu verið rekinn úr skóla. Eru fáar heimildir til um þennan tíma í lífi Hallgríms, en hvernig sem á því stóð hélt hann utan í kringum 15 ára aldur.
Mun hann fyrst hafa farið til Glukkstad, en 17–18 ára gamall er hann kominn til Kaupmannahafnar sem lærlingur hjá járnsmið einum. Hefur vistin þar eflaust verið honum þung, enda erfið vinna við illar aðstæður. Allavega virðist honum ekki hafa liðið sem best þegar Brynjólfur Sveinsson, síðar biskup í Skálholti, átti eitt sinn leið framhjá verkstæðinu þar sem hann vann. Heyrði hann þá einhvern blóta kröftuglega á kjarnyrtri íslensku og var þar kominn Hallgrímur. Hefur Brynjólfur eflaust þekkt til Hallgríms og viljað reyna rétta hans hlut. Hann fékk því til leiðar komið að Hallgrímur var tekinn í fyrsta bekk Frúarskólans í Kaupmannahöfn og sýnir það vel hve Brynjólfur hefur verið mikils metinn.
Og Hallgrímur sýndi fljótt að hann bjó yfir ágætum námshæfileikum. Fimm árum síðar eða árið 1636, var hann kominn í efsta bekk. En þá urðu aftur kaflaskil í lífi hans, því það ár komu til Kaupmannahafnar 38 Íslendingar sem höfðu verið herteknir í Tyrkjaráninu 9 árum fyrr, en höfðu verið keyptir lausir. Var Hallgrímur fenginn til að rifja upp með þeim kristinn boðskap. Í hópi þessa fólks var kona ein, Guðríður Símonardóttir. Þó svo að nokkur aldursmunur væri á þeim, því Guðríður var 38 ára gömul og því 16 árum eldri, tókust með henni og Hallgrími ástir. Þegar hópurinn hélt til Íslands vorið 1637 fór Hallgrímur heim með Guðríði og hætti í skólanum.
Þessi breytni Hallgríms átti eftir að draga dilk á eftir sér, því ekki var nóg með að hann hafði hætt í skólanum án þess að ljúka prófi, heldur hafði hann einnig gerst sekur um hórdómsbrot af verstu gerð, þar sem Guðríður var lögum samkvæmt enn gift. Það dró þó úr alvöru brotsins þegar fréttist að maður hennar var þá látinn. En brot var það engu að síður og von Hallgríms um prestsembætti heima á Íslandi rýrar eftir það.
Skömmu eftir að þau komu til Íslands ól Guðríður barn þeirra Hallgríms og nokkru síðar gengu þau í hjónaband. Er í raun lítið vitað hvar þau hjón dvöldu og störfuðu næstu ár á eftir, en Hallgrímur mun eittvað hafa stundað sjóróðra og verið í kaupavinnu í Hraunum á Suðurnesjum. Þá var hann eitthvað áhangandi hjá Árna á Ytra-Hólmi á Akranesi, syni Gísla Þórðarsonar lögmanns.
Það er svo árið 1644 að hann fær uppreisn æru og er veitt Hvalsnesprestakall af Brynjólfi biskupi, þeim sem fyrr hafði íhlutast um örlög hans. Þótti það heldur rýrt brauð en Hallgrímur hefur samt áreiðanlega þegið það með þökkum. Þjónaði hann þar í sjö ár. Þegar svo Saurbæjarprestakall losnaði sótti hann um það og fékk 1651.
Í Saurbæ vænkaðist hagur hans til muna og þar mun hann sennilega hafa tekið til við að yrkja Passíusálmana sem alltaf munu halda nafni hans á lofti. Áður hafði hann ort töluvert af lausavísum, rímum og veraldlegum kvæðum, en með aldrinum hneigðist hann meira til alvarlegri trúarkveðskapar.
Árið 1662 varð hann þó fyrir því óláni að eldur kom upp í Saurbæ og brunnu þá öll innanbæjarhús og mikið af búshlutum. Komust allir heilu og höldnu úr eldinum nema einn förukarl. Með hjálp góðra manna tókst Hallgrími að endurbyggja staðinn strax það sama haust.
En í Saurbæ veiktist hann af holdsveiki og árið 1667 var hann orðinn það þjáður að hann þurfti að fá sér aðstoðarprest. Lét hann alveg af prestskap árið 1669 og flutti að Kalastöðum til sonar síns Eyjólfs og tveimur árum síðar með honum að Ferstiklu. Þar lést hann árið 1674, sextugur að aldri, og var undir það síðasta alveg kominn í kör. Guðríður lifði mann sinn í átta ár.
Í æviágripi því sem stiftprófastur Hálfdán Einarsson skrifaði um Hallgrím sem formála að sálma- og kvæðasafni" hans lýsir hann séra Hallgrími á eftirfarandi hátt: ,,Síra Hallgrímur var að ytra áliti stór og ei liðlega vaxinn, dökkur á hár og brún, enginn raddmaður, en hversdagslega skemmtinn og glaðsinna; án viðhafnar tilbreytni, liðugur og orðheppinn í kveðskap, andríkur og orðhagur prédikari; velskiljandi þýsku, dönsku, latínu og sitt móðurmál" (2). Ef marka má ljóð hans og sálma hefur Hallgrímur einnig verið mjög trúhneigður og ,,málsvari fátæklinga og smælingja" (3).
Þau Hallgrímur og Guðríður eignuðust þrjú börn. Eyjólfur var þeirra elstur og lifði föður sinn, en þá áttu þau dótturina Steinunni sem lést á fjórða ári árið 1649. Þótti hún mjög efnileg og vel gert barn og syrgði Hallgrímur hana mjög. Mun sálmurinn ,,Allt eins og blómstrið eina" skrifaður í minningu hennar. Þriðja barnið var drengur sem hét Guðmundur, en hann mun hafa dáið ungur og ókvæntur.
Hallgrímur lifði það að sjá Passíusálmana gefna út á prenti, en þeir voru fyrst prentaðir á Hólum árið 1666.
Heimildir:
1) Vigfús Guðmundsson – Ævi Hallgríms Péturssonar og Saurbær á Hvalfjarðarströnd – bls. 44.
2) Andlegir sálmar og kvæði eftir Hallgrím Pétursson – Kostnaðarmaður Guðmundur Gunnlaugsson – Reykjavík 1931 bls. 8 – 9.
3) Stefán Einarsson – Íslensk bókmenntasaga – 874 1960. útg. Snæbjörn Jónsson – bls. 250.