Jón Thoroddsen

Jón Thoroddsen (5. október 1818 eða 1819 – 8. mars 1868) var sýslumaður og rithöfundur og er frægastur fyrir að hafa skrifað fyrstu íslensku skáldsöguna með nútímasniði. Jón fæddist á Reykhólum á Barðaströnd. Hann stundaði nám í Bessastaðaskóla og fór síðan til Kaupmannahafnar og las lög við Hafnarháskóla. Jón varð sýslumaður Barðstrendinga og bjó bæði í Flatey á Breiðafirði og Haga á Barðaströnd. Síðar varð hann sýslumaður Borgfirðinga og bjó á Leirá. Jón var lipurt ljóðskáld en er þó kunnastur fyrir að hafa skrifað fyrstu íslensku skáldsögurnar með nútímasniði. Eru það Piltur og stúlka sem kom út 1850 og Maður og kona sem hann dó frá ólokinni en hún var gefin út 1876, átta árum eftir dauða hans. Báðar eru sögurnar rómantískar ástarsögur sem gerast í íslenskri sveit. Aðalpersónur þeirra eru fremur litdaufar en aukapersónum er mörgum listilega vel lýst og hafa sumar lifað með þjóðinni fram á þennan dag, sbr. Gróu á Leiti.

Fengið af Wikipedia