Jonathan Swift

Sögurnar um ferðir Gúllívers hafa lengi notið mikillar hylli áhugasamra lesenda út um allan heim og gera enn í dag.  Höfundur þessara frábæru sagna var írskur maður, Jonathan Swift, og hefur hann stundum verið nefndur mesti háðsádeiluskrifari sem ritað hefur á enska tungu. 

MyndSwift fæddist í Dyflinni árið 1667.  Faðir hans sem var lögfræðingur lést sjö mánuðum áður en hann fæddist og móðir hans, Abigail Erick stóð ein uppi með soninn, slypp og snauð.  Varð af því töluvert los á fjölskyldunni sem bitnaði á Swift og af ástæðum sem nú eru ókunnar fór barnfóstra hans með hann til Englands skömmu eftir að hann fæddist.  Var hann þar í hennar umsjá þangað til á fjórða ári er var hann sendur aftur til Írlands.
Skömmu eftir að Swift sneri aftur til Írlands ákvað móðir hans að halda sjálf til Englands og skildi drenginn eftir í umsjá efnaðs frænda síns, Godwin, þar sem hann ólst upp.  Er erfitt að henda reiður á hvaða áhrif allt þetta brölt hefur haft á drenginn, en þetta varð þó til þess að Swift var sendur í góða skóla og fékk ágæta menntun.  Þrátt fyrir að Swift stæði á endanum uppi vel menntaður þótti hann enginn fyrirmyndarnemandi þegar hann var í skóla.  Þótti kennurum hans hann vera þrjóskur og oft hyskinn við námið.

Á tuttugasta og fyrsta aldursári (1688) fluttist Swift svo til Englands.  Fékk hann stöðu sem skrifari hjá Sir William Templeton, en kona hans var skyld Swift í móðurætt.  Dvaldi hann þar meira eða minna í 11 ár, en líkaði þó aldrei dvölin enda var hann nánast sem þjónn á heimilinu.  Reyndi hann fyrst að losna þaðan árið 1695 og vígðist sem prestur við Biskupakirkjuna á  Írlandi, en fann sig ekki í því og sneri aftur til fyrri starfa skömmu síðar.

Á þessum árum tók hann einnig að sér einkakennslu og kenndi m.a. stúlku að nafni Esther Johnson sem hann kallaði Stellu.  Átti hún síðar eftir að verða honum mjög nákomin.  Fylgdi hún honum til Írlands og hvert sem hún gat.  Varð það til þess að ýmsar slúðursagnir mynduðust um samband þeirra og sumir segja að þau hafi gengið í hjónaband árið 1716.  Stella lést árið 1728 og geymdi Swift ávallt lokk úr hári hennar þangað til hann lést. 

Þegar William Templeton lést árið 1699 sneri Swift aftur til Írlands.  Ári síðar gerðist hann prestur á Írlandi, en hafði jafnframt lifibrauð af því að skrifa í blöð og tímarit og halda fyrirlestra.  Þóttu skrif hans beitt og skemmtileg og var hann mjög vinsæll fyrirlesari.  Varð hann innan tíðar einn virtasti og þekktasti bókmenntamaður bæði á Englandi og heima í Dyflinni. 

Árið 1710 reyndi Swift að komast til pólitískra metorða, en með litlum árangri.  Skömmu síðar tók hann upp samband við annan fyrrverandi nemanda sinn sem einnig hét Esther og var 22 árum yngri en hann.  Vildi hún giftast honum, en Swift færðist undan.  Þegar hún svo tók upp á því að senda nöfnu sinni Johnson bréf þar sem hún spurði hvort þau Swift væru gift og hvort það væri ástæðan fyrir að hann vildi ekki giftast sér, hætti Swift með henni.  Tók hún það það mjög nærri sér.  Mörgum árum síðar voru bréf Swifts til hennar gefin út á bók.  Orti Swift mörg af þekktustu ljóðum sínum um samband þeirra.

Frá 1713 og fram til 1742 var Swift rektor við sánkti Patreks kirkjuskólann í Dyflinni.

Árið 1742 fór heilsu hans mjög að hraka og hann virtist missa tökin á tilverunni.  Var talið að hann hefði misst vitið, en í dag hallast menn af lýsingum á hegðun hans að dæma, að því að hann hafi verið með Alzheimer sjúkdóminn.  Virðist hann hafa vitað hvert stefndi því nokkru áður hafði hann sagt einum vina sinna er þeir stóðu og horfðu á tré sem hafði fellt öll lauf að hann yrði eins og það tré, ,,Ég mun deyja ofan frá.” 

Jonathan Swift lést þann 19. október árið 1745. 

Eins og áður sagði skrifaði Swift mikið alla ævi og þótti með skemmtilegustu og áhugaverðustu bókmenntamönnum sinnar tíðar.  Sem slíkur var hann virtur jafnt af bókmenntafólki og öðrum. 

Sögurnar af Gúllíver komu út árið 1726.  Skrifaði hann þær undir áhrifum frá sögunni af Róbinson Krúsó eftir Daniel Defoe sem kom út sjö árum fyrr.  Eru tengslin vel greinanleg en Swift lét Gúllíver vera lækni eins og Róbinson var og báðir lenda þeir í skipskaða sem verður til þess að þeirra bíða óvenjulegar kringumstæður og báðir segja þeir sögu sína sjálfir í fyrstu persónu.

Það er hins vegar ólíkt með þessum sögum að Swift notaði uppákomurnar til þess að skoða sitt eigið samfélag hlutlægum augum.  Sjálfur sagðist hann hafa skrifað þær til að næra heiminn.  Í fyrstu ferðinni lætur hann Gúllíver lenda hjá Putalingum sem eru hégómlegir í meira lagi og vilja alltaf vera í tilgangslausu stríði við nágranna sína.  Var hann þar að deila á þjóðhöfðingja og stjórnir sem eru sífellt að leitast við að auka völd sín. 

Í annarri ferð sinni lendir Gúllíver í landi risa, sem skilja ekki abstrakt (óhlutlæga) hugsun.  Þar deilir hann á þá sem telja skynsemina ofar öllu og meta hið óhlutlæga eins og list og trú einskis. 

Í þriðju og lokaferðinni beindist deilan að vísindamönnum samtímans.  Þar kveður Swift upp þann dóm yfir vísindunum að þau séu einskis virði nema þau stuðli að bættum heimi og velfarnaði fólks almennt.  Í þeirri ferð kynnist Gúllíver t.a.m. galdrafólki sem gat komið honum í samband við hina látnu og hann á samræður við menn fortíðarinnar eins og Alexander mikla, Júlíus Sesar, Aristóteles og fleiri.  Þá kemur hann í sömu sögu til lands þar sem hestar búa yfir greind manna, en menn eru heimskir eins og hestar. 
Vöktu sögurnar mikla athygli þegar þær komu út og hafa gert alla tíð síðan, einkum fyrstu tvær sem gerast í Putalandi og Risalandi.  Hafa þær gjarnan verið einfaldaðar og færðar í búning fyrir börn og notið sem slíkar gríðarlegrar hylli þó svo að ádeilan hafi  stundum farið fyrir ofan garð og neðan. 
Af öðrum þekktum verkum Swifts má nefna The Battle of the Books, (Bardagi bókanna) sem kom út árið 1697.  Þar skoðar hann bókmenntir frá ýmsum tímum og metur þær. 

A Tale of a Tub (Saga af baðkari) kom út árið 1704 og þar tók hann fyrir trúmál.  Segir sagan af föður einum sem eignast þríbura sem hver um sig stendur fyrir sína kirkjudeildina.  Faðirinn er að vitanlega sjálfur Guð.  Þegar hann deyr arfleiðir hann syni sína af þremur frökkum sem þeir koma til með að bera alla ævi.  Var bókin þrungin ádeilu og svo harðri að Swift þorði fyrst í stað ekki að láta gefa hana út.  Að endingu gaf hann hana út undir dulnefni, en menn voru samt fljótir að átta sig á hver væri höfundurinn.  Var bókinni mjög vel tekið og jók hróður hans enn frekar.

Í annari bók frá 1708, Arguments against abolishing Christianity (Rök gegn afnámi kristinnar trúar) lagði Swift til grundvallar þá skoðun sína að kristna trú mætti með engu móti leggja niður og taldi hana vera félagslega nauðsyn. 
Eru þetta aðeins nokkur dæmi um ritverk Swifts sem eru gríðarleg að vöxtum.
Það hefur verið sagt um Jonathan Swift að hann hafi verið hálfgerður mannhatari, þ.e. að hann hafi ekki trúað á manninn og viðleitni hans til að stýra heiminum.   Í bréfi sem hann skrifaði skáldinu Alexander Pope segir hann t.a.m. á einum stað: ,,Í grunninn þá hata ég mannskepnuna, en elska af öllu hjarta þá Jóhannes, Pétur og Tómas.”   En það var þó fyrst og fremst vilji Swifts til að bæta umhverfi sitt sem nærði skrif hans og alla tíð barðist hann ötullega fyrir málstað írskrar alþýðu í baráttu þeirra gegn enskri kúgun.  Þá gaf hann þriðjung allra tekna sinna til ýmissa góðgerðarmála og um tíma öðrum þriðjungi til að koma á fót heimili fyrir þroskahefta.  Ekki eru það verk manns sem ann ekki meðbræðrum sínum.

Þessi þýðing eða endursögn var unnin af skáldinu Þorsteini Erlingssyni í kringum aldamótin 1900.  Gaf íslenskum lesendum innsýn inn í þessa stórkostlegu sögu, þó svo að einungis sé um brot að ræða.