Saki - Hector Hugh Munro

Hector Hugh Munro (Saki) kom víða við á ritvellinum þrátt fyrir stuttan aldur. Hann skrifaði jöfnum höndum fréttir, pólitískar háðsádeilur, sagnfræði, leikrit, skáldsögur og smásögur. Í dag eru það þó aðallega smásögurnar sem halda nafni hans á lofti, enda margar hverjar afburða góðar og skemmtilegar. Munro notaði höfundarnafnið Saki, sem hann tók úr kvæði eftir perneska stjörnufræðinginn, stærðfræðinginn, heimspekinginn og skáldið Omar Khayyam (1048-1131).

Munro fæddist í Akyab í Burma 18. desember árið 1870. Faðir hans var af skosku bergi brotinn og starfaði sem yfirmaður í bresku herlögreglunni þar í landi. Ól Munro aldur sinn fyrstu árin í Burma hjá foreldrum sínum ásamt systur sinni Ethel og bróður sínum Charlie, en þegar Munro var tveggja ára, lést móðir hans og voru þá systkinin send heim til Englands þar sem tvær frænkur þeirra, Tom og Augusta, önnuðust uppeldið. Voru þessi umskipti Hector ekki alls kostar að skapi og honum fannst frænkur sínar strangar og tilætlunarsamar. Hefur því verið haldið fram að hann hafi á stundum reynt að hefna sín á þeim í skrifum sínum.

Árið 1887 fluttist faðir hans frá Burma og fjölskyldan fór í langt ferðalag með viðkomu í Frakklandi, Þýskalandi og Sviss. Árið 1891 settist faðir hans svo að í Devon á Englandi og gerðist kennari.

Hector, sem hafði alltaf séð Burma í hillingum, ákvað svo árið 1893 að ganga til liðs við herlögregluna þar eins og faðir hans hafði gert. (Það má geta þess í framhjáhlaupi að annar þekktur rithöfundur sem hélt þann starfa var Eric Blair, sem betur er þekktur undir nafninu George Orwell.) En dvölin í Burma var endaslepp vegna heilsubrests og sneri hann aftur til Englands að þremur árum liðnum.

Á Englandi hóf hann störf sem blaðamaður og skrifaði greinar í mörg blöð, s.s. The Westminster Gazette, The Daily Express, Bystander, The Morning Post og Outlook. Eftirminnilegustu skrif hans frá þessum tíma var fastur pólitískur dálkur sem hann skrifaði í Westminster Gazette og bar yfirskriftina Alice in Westminster. Vísunin í söguna Lísa í Undralandi segir sitt um innihald greinanna þar, sem oft á tíðum höfðu yfir sér ólíkindablæ.

Árið 1900 gaf hann svo út sína fyrstu bók The Rise of the Russian Empire, sem var sagnfræðilegt skýringarit í anda bókarinnar ,The Decline and Fall of the Roman Empire eftir Gibbons. Fékk bókin slæma dóma.

Árið 1902 gerðist hann svo fréttaritari fyrir Morning Post í Balkanlöndunum, Frakklandi og Rússlandi. Hélt hann þeim starfa fram til ársins 1908, en þá settist hann að í London. Það var einkum á þessum árum sem hann skrifaði margar af þekktustu gamansömu smásögunum, sem menn minnast hans helst fyrir. Kom fyrsta smásagnasafnið Not-So-Good Stories út árið 1902.

Eins og áður sagði er Munros aðallega minnst fyrir skáldverk sín í dag. Fyrsta tilraun hans á því sviði var árið 1902, er hann gaf út smásagnasafnið Not-So-Good Stories. Það sama ár voru pistlar hans í Westminster Gazette gefnir út á bók. Hlaut hvoru tveggja nokkrar vinsældir. Í kjölfar þess komu svo sögur af Reginald(1904) og Reginald í Rússlandi (1910). Eftir það komu verk hans út með styttra millibili; The Chronicles of Clovis (1911), The Unbearable Basington (1912), Beasts and Super-Beasts (1914) og When William Came (1914), en það var jafnframt síðasta bókin hans sem gefin var út meðan hann lifði.

Sögur Munros er flestar samtímasögur, en í þeim gerir hann óspart grín að enskum siðum og venjum. Nær hann því að vera hnyttinn og skemmtilegur um leið og hann kemur ádeilum sínum og skoðunum á framfæri á mjög svo beinskeyttan hátt. Haft var eftir enska rithöfundinum Graham Greene að Munro væri besti húmoristinn í enskum bókmenntum 20. aldar.

Það hefur verið sagt um sögur Munros að þær séu nógu sannar til að vera áhugaverðar og séu í leiðinni nógu ósennilegar til að vera ekki leiðinlegar. Á sínum tíma þóttu þær gott lesefni fyrir skólanema, enda fjalla margar af sögum hans um ungar manneskjur og samskipti þess við sér eldra og reyndara fólk.

Munro var samkynhneigður og hafa menn haldið því fram að það megi merkja á sögum hans; að það ásamt með þeim vondu áhrifum sem hann varð fyrir frá frænkunum sem ólu hann upp, kalli fram ómeðvitaða kvenfyrirlitningu í sögum hans, en við nánari athugun stenst það engan veginn, og þó segja megi að rithöfundar jafnt sem aðrir hljóti alltaf að bera sínar hugsanir og skoðanir á borð í verkum sínum, verður slíkt ekki merkt í sögum Munros framar öðrum.

 

While shepherds watched their flocks by night
All seated on the ground,
A high explosive shell came down
And mutton rained around.
SAKI (HECTOR HUGH MONRO) (1870-1916)

 

Munro skráði sig í breska herinn við upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar þrátt fyrir að vera orðinn fjörtíu og fjögurra ára gamall. Var honum strax boðin foringjatign, en hafnaði því á þeim forsendum að hann gæti ekki krafist þess að nokkur maður fylgdi sér í bardaga nema hann sjálfur hefði öðlast reynslu af slíku.

Var herdeild hans send til Frakklands og í skotgröfunum þar hélt hann áfram að skrifa. Honum var svo aftur boðin liðsforingjatign í september árið 1916, sem hann þáði, enda orðinn reynslunni ríkari. Í nóvember það ár var herdeild hans stödd nærri franska bænum Beaumont-Hamel og þar var Munro skotinn til bana af þýskri leyniskyttu 14. nóvember. Segir sagan að hann hafi þá verið staddur í sprengjubyrgi og að síðustu orð hans hafi verið: ,,Slökktu á andskotans sígarettunni".