T. H. Zeilau

Þrátt fyrir nokkrar tilraunir hefur okkur hjá Lestu.is ekki tekist grafa upp neitt hvað varðar ævi höfundarins Zeilau og vitum það eitt sem kemur fram í bókinni, en það er að Zeilau þessi var liðsforingi í konunglega danska hernum og virðist hafa haft mikinn áhuga á fjarskiptum, auk þess sem hann hefur verið glöggur maður á allan hátt og prýðilegur penni. Ef einhver veit meira en hér kemur fram þætti okkur vænt um ef sá hinn sami setti sig í samband við okkur.

En til að hafa eitthvað af höfundinum á höfundarsíðunni látum við fljóta með stutt ávarp hans í veislu sem haldin var á Englandi áður en hópurinn lagði af stað.
,,Það er mér mikil gleði að svara þessarri skál sem mælt var fyrir og móttekin á svo fagran hátt. Leyfið mér að skýrskota til þess umburðarlyndis sem er aldrei neitað útlendingi sem reynir að tala máli ykkar, í samkomu sem þessarri (great cheering). Ég þori að fullyrða að hans hátign konunginum í Danmörku er ánægja af því að geta lagt til svo marga staði sem eru á hans umráðasvæði, til þessarrar ritsímalínu sem á að tengja Bandaríkin og Danmörku, Stóra-Bretland og alla Evrópu. Það er dálítið merkilegt atriði að á öllum stöðum þessarrar línu er að finna fólk sem er af skyldum stofni. Við annan endann eru Skandinavar, forfeður engilsaxanna og við hinn endann eru afkomendurnir: Ameríkanar (applause). Þessi lína liggur í gegnum þrjú lönd þar sem fólk með sama blóð í æðum býr, en það er einnig annað merkilegt samræmi: - stjórn allra þessarra landa er byggð á sönnu frelsi og það væri óskandi ef þessi lína, sem auðvitað mun færa skeyti til annarra landa, muni einnig senda eitthvað af frelsishugsjónum sem eru okkur öllum kærar (loud cheers). Til þess að þetta geti gerst er nauðsynlegt að friður ríki hér eftir í heiminum (hear, hear). Frelsið er bundið friðnum og land sem er frjálslega stjórnað skýrskotar alltaf til friðarins sem hins besta bandamanns".