Biblían er safn trúarrita, sem sum eru meira en 2000 ára gömul en önnur nokkru yngri. Orðið biblía er grískt og þýðir bækur.
Biblían skiptist í tvo aðalhluta, Gamla testamentið og Nýja testamentið, og fjallar fyrrnefndi hlutinn um sköpun jarðar, upphaf mannfólksins, syndaflóðið, lögmálið, frelsun Ísraels og gyðinga frá Egyptalandi, afhendingu boðorðanna tíu, og sýnir og vitranir spámannanna, svo eitthvað sé nefnt. Seinni hlutinn (Nýja testamentið) fjallar um fæðingu Jesú, lærisveina hans, krossfestingu hans og upprisu. Því næst fylgja ýmis bréf sem send voru af lærisveinunum og að lokum spádómsbók um endalok tilvistar okkar á jörðinni. Sumar útgáfur af biblíunni, m.a. biblía 21. aldar, skjóta svokölluðum Apókrýfuritum Gamla testamentisins inn milli testamentanna.
Nokkur trúarbrögð álíta rit biblíunnar heilög og byggja trú sína meira eða minna á þeim. Meðal þessara trúarbragða eru gyðingdómur og kristni. Biblían er víða talin vera mest selda bók allra tíma, hefur áætlaða ársveltu um 100 milljónir eintaka, og hefur haft mikil áhrif á bókmenntir og sögu.
-
- HÖFUNDUR:
- Óþekktur
- ÚTGEFIÐ:
- 2019
- BLAÐSÍÐUR:
- bls. 1996