Walter Scott
Því hefur hefur verið haldið fram að skoski lögfræðingurinn Walter Scott hafi verið fyrsti rithöfundurinn sem naut alþjóðlegrar hylli meðan hann enn var á lífi. Náðu vinsældir hans út um allan hinn enskumælandi heim, auk þess sem sögur hans nutu mikilla vinsælda í mörgum löndum Evrópu. Þá hefur honum verið eignaður heiðurinn af því að vera fyrsti sögulegi rithöfundurinn. Þó svo að nafn hans sé ekki jafn þekkt í dag, er hann enn töluvert lesinn og sífellt er verið að kvikmynda sögur hans og gera úr þeim sjónvarpsþætti. Þekktastur er hann fyrir sögurnar Ivar Hlújárn (Ivanhoe), Rob Roy, The Lady of the Lake og Waverly.
Scott fæddist í Edinborg á Skotlandi 15. ágúst árið 1771 þar sem faðir hans var virtur lögfræðingur. Á öðru ári veiktist hann af lömunarveiki og þó að hann næði sér þokkalega gekk hann ávallt haltur eftir það. Í kjölfarið var hann sendur út í sveit til afa síns og ömmu í þeirri von að sveitaloftið hefði góð áhrif á hann. Þar naut hann kennslu og ástríkis frænku sinnar, Jennýjar, sem kenndi honum ótal sögur og kynnti hann fyrir ólíkum mállýskur enskunnar.
Dvölin í sveitinni hafði jákvæð áhrif og árið 1778 hóf hann skólagöngu í Edinborg. Las hann mikið á þeim tíma, einkum riddarasögur, sagnfræði og ferðasögur. Í fríum dvaldi hann gjarnan hjá Jennýju frænku sinni og hélt hún áfram að fræða hann með sögum og öðrum þjóðlegum fróðleik.
Árið 1783, þá einungis tólf ára gamall hóf hann nám við í Edinborgarháskóla þar sem hann nam klassískar bókmenntir. Þremur árum árum síðar ákvað hann að feta í fótspor föður síns og gerast lögfræðingur. Samhliða lögfræðináminu nam hann mannkynssögu.
Eftir námið hóf hann störf sem lögfræðingur í Edinborg og fór í tengslum við það að hafa nokkur samskipti við fólk í Hálöndunum, sem hann átti eftir að skrifa mikið um og upphefja í sögum sínum og ljóðum.
Það var svo fyrst í kringum 25 ára aldurinn að hann byrjaði að fikta við að skrifa. Í upphafi fólst það einkum í að þýða ljóð úr þýsku. Fljótlega sneri hann sér þó að því sem stóð honum nær og gaf út söngljóð um skosku hálöndin. Á þessum tíma kynntist hann konu sinni Jean Charpentier frá Frakklandi, en þau eignuðust fimm börn saman. Árið 1799 var hann svo skipaður varalögreglustjóri í Selkirkhéraði.
Nú var hann kominn með ágætis tekjur og ákvað í kjölfarið að koma á fót prentsmiðju og fara út í bókaútgáfu. Gekk hún mjög vel fyrstu árin og Scott gaf út fjölmörg ljóðasöfn eftir sjálfan sig sem sum urðu mjög vinsæl. Barst hróður hans víða og tónskáldið Schubert samdi t.a.m. lög við sum ljóða hens í þýskum þýðingum.
En innan tíðar fór útgáfustarfsemin að ganga verr og fjárhagurinn versnaði. Þá ákvað hann að reyna að skrifa bók sem myndi seljast nægilega vel til að snúa þróuninni við. Útkoman var sagan Waverley. Er hún söguleg skáldsaga og varð mjög vinsæl. Kom þó hvergi fram hver væri höfundur hennar.
Í kjölfarið ákvað Scott að halda áfram á sömu braut og næstu árin komu út fleiri bækur í svipuðum anda. Enn lét hann ekki fylgja með hver væri höfundurinn, nema hvað að bækurnar voru sagðar vera skrifaðar af höfundi Waverley. Sögurnar seldust allar ágætlega og menn veltu mikið vöngum yfir því hver væri höfundur þeirra. Voru margir þó vissir um að Scott væri höfundurinn.
Fram að 1819 lét Scott sögur sínar gerast á Skotlandi en með útkomu bókarinnar Ivanhoe (Ívar hlújárn) varð breyting þar á. Sagan, sem er rómantísk söguleg skáldsaga, gerist á 12. öld á Englandi. Varð hún strax gríðarlega vinsæl og má segja að vinsældum hennar hafi lítið linnt fram á daginn í dag.
Sagan var nokkuð óvenjuleg, ekki síst fyrir það að hún sýndi gyðingum samúð en fyrir marga var aðalhetjan í sögunni gyðingastúlkan Rebecca. Nú var hann nánast hættur að fela hver höfundur bókanna var og frægð hans óx bók af bók. Var honum veitt barónstign árið 1822.
Árið 1825 var Scott aftur komin í fjárhagskröggur og útgáfufyrirtækið riðaði á barmi gjaldþrots. Enn tókst honum að bjarga sér fyrir horn og náði að skrifa sig út úr mestu skuldunum ef svo mætti að orði komast. Síðustu afborganirnar voru þó ekki greiddar fyrr en að honum látnum, en greiðslurnar komu þó af bókum hans.
Hélt hann fullum afköstum í skrifum sínum nánast allt fram í andlátið, en hann lést 21. september 1832.
Rithöfundurinn Walter Scott
Í gegnum fænku sína kynntist Scott ungur þjóðlegum fræðum og fékk mikinn áhuga á þeim. Hélst sá áhugi alla ævi og notaði hann þá þekkingu mikið við skrif sín hvort heldur var í ljóðum og sögum.
Hann hóf þó ekki að skrifa neitt að marki fyrr en um miðjan þrítugsaldur og þá fólust skrif hans einkum í að þýða ljóð og svo að semja ljóð. Náðu sumar ljóðabóka hans töluverðum vinsældum og naut hann virðingar sem ljóðskáld.
Það er fyrst með versnandi fjárhag að hann byrjar að skrifa skáldsögur sér til framfæris. Hann fer sem sagt út í skáldsagnagerð fyrst og fremst til að afla tekna og leggur megin áherslu á að skrifa þannig að fólki líki. Hafa menn gjarnan fundið að því og sagt að það megi greinilega lesa út úr sögum hans..
Má ætla að hann sjálfur hafi ekki í fyrstu litið á sögur sínar sem miklar bókmenntir, sem sést kannski best á því að hann lætur sín ekki getið sem höfundar. Hvað sem því líður þá eru það fyrst og fremst sögur hans sem hafa haldið nafni hans á lofti og nutu þær gríðarlegra vinsælda; vinsælda sem héldust alveg fram að fyrri heimsstyrjöld en þá fyrst fór að draga verulega úr sölu þeirra.
Sögur hans má segja að hafi verið rómantískar ævintýrasögur, sem skrifaðar voru inn í raunverulega atburði og umhverfi. Honum hefur enda verið eignaður sá heiður að vera fyrsti höfundur sögulegra skáldsagna. Í sögum sínum notaðist hann gjarnan við þjóðsögur og þá naut þekking hans á þjóðfræði sín mjög vel. Að því leytinu til gátu sögur hans haft eitthvað fræðslugildi. Vegna vinsælda bókanna fóru margir að stæla stíl hans og yfir markaðinn helltist urmull af sögulegum skáldsögum í öllum stærðum og gerðum, og misjafnlega vandaðar. Er ekki að efa að brautryðjandinn Walter Scott hefur á margan hátt goldið fyrir það og oft verið settur í hóp með alls kyns höfundum sem hann átti ekkert sameiginlegt með.
Eins og jafnan með höfunda sem ná miklum vinsældum, þá verður gagnrýnin á þá stríðari og hafa margir orðið til að gagnrýna bækur Scotts. Má þar t.a.m. nefna bandaríska höfundinn Mark Twain sem gekk svo langt að kenna Scott um það að suðurríkin skyldu hefja stríð gegn norðurríkjunum í þrælastríðinu. Þeir hafi verið knúnir áfram af rómantískum hugarórum sem þeir hafi dregið út úr bókum Scotts. Er saga Twains A Connecticut Yankee sumpart skrifuð sem gagnrýni á sögur Walter Scotts.
Þá hafa gagnrýnendur viljað meina að skrif hans hafi verið illa ígrunduð, sögufléttur hans einfaldar og persónusköpun afleit. Hefur honum gjarnan verið legið á hálsi að skorta allan húmor.
Það verður þó að segjast eins og er að mikið af þessari gagnrýni er og verður ómarktæk, enda aðallega til fundin löngu eftir dauða hans. Það verður líka að skoðast að markmið Scotts var fyrst og fremst að skemmta og þar tókst honum vel upp.
En Scott skrifaði ekki bara stórar og þykkar sögulegar skáldsögur. Hann skrifaði töluvert af smásögum sem margar hverjar þykja listavel skrifaðar og eru flestir gagnrýnendur sammála um að þar hafi honum tekist hvað best upp.
Einnig skrifaði hann mikið af alls kyns fræðibókum. Hann lauk t.a.m. við ágæta ævisögu Napóleóns skömmu fyrir dauða sinn. Þá liggja eftir hann nokkrar bækur um þjóðleg fræði og vilja margir meina að hann hafi með því bjargað ýmsu frá glötun í þeim efnum. Það eitt væri nóg til að halda nafni hans á lofti um ókomin ár.