Höfundur og umhverfi

Í þessari fyrstu stund ræða þeir Baldur og Ingólfur um höfundinn og huga að umhverfi sögunnar.  Þegar þið hafið lokið við að horfa á myndbandið er tilvalið að fara yfir hugleiðingarnar sem koma á eftir.  Við hvetjum ykkur svo til að segja álit ykkar neðst á síðunni. Góða skemmtun!

Hugleiðingar

Upphafsorð hverrar sögu eru afar mikilvæg. Þeim er ætlað að grípa lesandann og ná á honum tökum. Í fyrstu málsgrein er brugðið upp mynd af Snæfellsjökli og andstæðurnar eldur og ís blasa við. Síðar í kaflanum kemur í ljós að mennirnir eiga eitthvað skylt við jökulinn, kaldranalegir hið ytra en logandi hið innra, stundum af ást, stundum hatri.
Í fyrstu málsgrein er einnig lögð áhersla á hrjóstrugt landið sem umlykur sögusviðið. Það er „bert og blásið“ – og stuðlunin ýtir undir þessa berangurstilfinningu.  Síðan er náttúran m.a. sögð „þunglyndisleg“, og slík lýsing gefur tóninn um anda verksins. Mennirnir eru einnig sagðir „þöglir og þungbúnir“; jafnframt er talað um „þögnina og þunglyndið“ og að allt sé „fúlt og fjandsamlegt“. Þannig er greinilegt að það sem í hönd fer mun ekki verða sveipað mikilli birtu eða gleði.
Fyrsti kaflinn er áhrifamikil lýsing á eyðilegu og ógnvekjandi landi (við tökum t.d. eftir því að ekki er talað um fegurð jökulsins) og svipur landsins er síðan tengdur einkennum mannfólksins. Þetta er algengt einkenni rómantískra verka. Hér er um almenna lýsingu á sjósóknurum undir Jökli að ræða, enn er atburðarásin ekki hafin en látið er að því liggja í lok kaflans að stórviðburða sé að vænta.
Í kaflanum örlar á rómantískri fortíðarhyggju þegar sagt er að fyrri tíðar menn hafi ekki notið „gangvéla“, heldur hafi sjálfir þurft að „síga á árarnar“.