Lokaumræður
Þá er komið að fjórðu og síðustu lesstundinni í leshringnum um söguna Sýður á keipum eftir Jón Trausta. Þar leggja þeir Baldur og Ingólfur dóm á söguna og þið fræðist m.a. um merkingu titils sögunnar. Þegar þið hafið lokið við að horfa á myndbandið er tilvalið að fara yfir hugleiðingarnar sem koma á eftir. Við hvetjum ykkur svo til að segja álit ykkar neðst á síðunni. Góða skemmtun!
Hugleiðingar
Í síðari hluta sögunnar er komið að hefnd þeirra Totufeðga. Rauða skotthúfan er táknræn á margan hátt í þeim hildarleik. Hún er jú gjarnan merki hirðfíflsins en svo er líka blóð rautt á lit.
Ráð Sigurðar að saga í árar þeirra Sæmundar er hugvitssamleg flétta hjá höfundi, en Sigurður er búinn að reikna það út í huganum hversu mikið hann má saga í árarnar til að þær þoli siglingu frá landi en brotni við áratogin að landi.
Framkoma þeirra Totumanna eftir morðið á Tóbíasi er á margan hátt eftirtektarverð, en storkandi hegðunin veit ekki á gott.
Orðatiltækið sýður á keipum kemur fjórum sinnum fyrir í sögunni og má segja að það bindi söguna saman. Er það bæði notað í bókstaflegri merkingu og yfirfærðri. Keipur er þar sem árin liggur. Þegar bátur siglir hratt eða er drekkhlaðinn frussast (sýður) á keipunum.